Ómar fortíðar í Edinborgarhúsinu
Nýverið gaf Ómar Guðnjónsson út plötuna Ómar fortíðar. Í tilefni útgáfunnar heldur Ómar tónleika í Edinborgarhúsinu, föstudaginn 7. október kl. 20:30.
Miðaverð 2.500 kr., miðasala við innganginn.
Á plötunni flytur Ómar þekkt lög úr þjóðarsál Íslendinga á hljóðfærið "fetilgítar" eða "pedal steel" á móðurmáli hljóðfærisins. Með Ómari á hljómplötunni eru þeir Matthías Hemstock á slagverk og Tómas Jónsson á píano og hljóðgervla. Lögin eru t.d úr smiðju Karls Ó Runólfssonar, Jónasar Tómassonar, Árna Thorsteinssonar og Bjarna Þorsteinssonar. Öll frá árunum 1930 til 1960.
Ómar Guðjónsson hefur víða borið niður, í flestum stílum og stefnum ryþmískrar tónlistar. Hann hefur líka rannsakað hljóðheim gítarsins – og fetilgítarsins – meira en margur. Það er meira en aldarfjórðungsreynsla í þeim fingrum sem hér túlka með nýjum hljómi margar gersemar úr íslenskri sönglagahefð. Hann hnikar öllu til, sleppir orðunum, breytir hljómunum, styttir og lengir upprunalengd laglínunótnanna og skapar ný lög eins og sá djassmaður sem hann er. En þessi nýju gömlu lög snerta íslensk hjörtu á allt annan hátt en frumlegar útgáfur af klassískum djasslögum; hann er nefnilega að endurskapa lög sem við ólumst upp við og óma inni í okkur. Og kannski ræður það úrslitum að þessi endursköpun er borin fram af sterkri ljóðrænni tilfinningu sem kallast á við rómantíkina sem réði ferð hjá höfundum laganna.
Tónleikarnir eru studdir af Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.
Staðsetning og tími: Bryggjusal 7. október kl. 20:30