Jazzdagskrá Edinborgarhússin
Edinborgarhúsið kynnir glæsilega jazzdagskrá með fimm tónleikum frá lok júlí fram í september. Í boði verður jazzpassi á sérstökum kjörum sem gildir á alla fimm tónleikana. Dagskráin er í samstarfi við Jazzhátíð Reykjavíkur en Edinborgarhúsið og hátíðin hafa átt í farsælu samstarfi undanfarin þrjú sumur.
Jazzpassann má kaupa á Glaze fyrir aðeins 10.500 kr. sem jafngildir fimm tónleikum á verði þriggja.
Dagskráin einkennist af skemmtilegri blöndu íslenskra og erlendra tónlistarmanna sem ná utan um fjölbreytta flóru jazztónlistar.
Ísfirðingurinn Freysteinn Gíslason og kvartett hans ríður á vaðið með tónleikum föstudaginn 25. júlí. Kvartettinn mun leika efni af nýrri plötu Freysteins Að einhverju/To Somwhere sem kom út þann 1. nóvember síðastliðinn. Platan hefur fengið góða dóma í erlendum jazz-miðlum og verður spennandi að heyra efni plötunnar í lifandi flutningi.
Fimmtudaginn 14. ágúst mætir svo hljómsveitin ADHD og leikur ný lög ásamt því að hleypa gömlum lögum á skeið. ADHD gaf út níundur hljómplötu sína í október 2024 og hefur verið að fylgja henni eftir með tónleikaferðalögum hérlendis og erlendis undanfarna mánuði. ADHD kemur einnig fram á Jazzhátíð Reykjavíkur þriðjudaginn 26. ágúst.
Föstudaginn 22. ágúst verður svo sannkölluð norræn jazzveisla þegar tríóið Osgood/Blak/Poulsen leikur. Tríóið sameinar þrjá ólíka tónlistarmenn úr norrænu jazzsenunni sem sameinast um opna og ævintýralega nálgun á tónlistarsköpun.
Miðvikudaginn 27. ágúst mætir svo svissneska tríóið Quiet Tree og leika á tónleikum áður en þeir koma fram á Jazzhátíð Reykajvíkur. Quiet Tree er verkefni sem varð til í samstarfi þriggja tónlistarmanna: Simon Spiess, Jonas Ruther og Marc Méan.
Föstudaginn 19. september er svo komið að lokatónleikunum en þá kemur fram Kvartett Sunnu Gunnlaugs ásamt Marínu Ósk. Tónleikarnir bera yfirskriftina „Ástin, bjartsýnin og andskotans blaðrið í fólkinu“ en það er titill plötu sem kom út á síðasta ári og hefur að geyma sjö lög Sunnu við ljóð Jóns úr Vör. Platan var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna og Marína var valin söngkona ársins í jazzflokki.
Staðsetning og tími: Edinborgarhúsinu júlí til september