Samband English

AdHd í Edinborg

Hljómsveitin ADHD heldur tónleika í Edinborgarhúsinu, þriðjudaginn 11. apríl kl. 20:30. Þriðjudagur eftir páska er mögulega þreyttasti dagur ársins á Ísafirði eftir skíðaviku og Aldrei fór ég suður. En þá er upplagt að lyfta sér upp með ADHD. Tilvalið fyrir eftirlegukindur, þreytta og þunna að skella sér á tónleika.

Miðasala á Tix.is.

Hljómsveitin ADHD gaf út sína áttundu plötu, ADHD 8, í fyrra. Hljómsveitin fylgdi útgáfunni eftir með útgáfutónleikum á Húrra í Reykjavík og tónleikaferð um Evrópu. Nú, hálfu ári síðar, ætla þeir félagar loksins í reisu um Ísland; ADHD 8 fylgt eftir!

Í ágústmánuði 2020 fylltu meðlimir hljómsveitarinnar ADHD nokkra bíla af hljóðfærum og upptökugræjum og brunuðu af stað austur á Höfn í Hornafirði og stefnan sett beinustu leið inn í Hafnarkirkju þar sem taka átti upp nýja plötu, þá áttundu í röðinni. Með þeim í för var Ívar Ragnarsson upptökustjóri og mixermaður par excellance. Var þeim vel tekið af kirkjuverðinum Bróa og Alberti og fengu þeir ADHD félagar að nýta kirkjuna allan sólarhringinn. Úr þessum upptökum varð til plata með 8 nýjum lögum, lögum sem sum eru angurvær, önnur hressari. Segja má að sveitin hafi í raun snúið aftur ,,heim” við upptökur þessarar nýju skífu því að fyrstu hljómleikar sveitarinnar voru einmitt haldnir á Höfn á Hornafirði 13 árum áður.

Hljómsveitin ADHD hefur verið starfrækt í meir en áratug, gefið út 8 plötur og ferðast um Evrópu þvera og endilanga í hljómleikaferðum undanfarin 10 ár. Hljómsveitina skipa Óskar Guðjónsson sem spilar á alls kyns saxófóna, Ómar Guðjónsson sem leikur á gítar, fetilgítar og bassa, Tómas Jónsson sem leikur á ýmis konar orgel, hljóðgervla og píanó og Magnús Trygvason Eliassen sem leikur á trommur og slagverk.

Tónleikar þann 11. apríl hefjast klukkan 20:30.

Staðsetning og tími: Edinborgarsal 11. apríl kl. 20:30

© Edinborg Menningarmiðstöð
Merki DressUpGames