Samband English

Opin bók í Edinborgarhúsinu

Laugardaginn 27. nóvember verður bókmenntavakan Opin bók haldin í Edinborgarsal Edinborgarhússins. Í eðlilegu árferði hafa mætt vel rúmlega 100 manns á upplestrardagskrá Opinnar bókar. Í ár ætlum við að halda okkar striki en getum við því miður ekki tekið á móti nema 50 manns, vegna samkomutakmarkana og verða þeir allir að vera skráðir. Til þess að þurfa ekki að vísa neinum frá við dyrnar ætlum við að leyfa fólki að skrá sig fyrirfram með því að senda tölvupóst á netfangið opinbok2021@gmail.com. Í póstinum verða að koma fram nöfn, kennitölur og símanúmer allra þeirra sem ætla að mæta. Svo verður merkt við viðkomandi þegar þau mæta. Auk þessa munum við að sjálfsögðu gæta að öllum eðlilegum sóttvörnum – spritt, grímur og fjarlægð.
 
Fyrir þá sem vilja frekar fylgjast með viðburðinum heima í stofu verður honum streymt á Facebook síðu Edinborgarhússins.
 
Í ár verða gestir Opinnar bókar þau Ólína Þorvarðardóttir, höfundur skáldsögunnar Ilmreyrs; Fríða Ísberg, höfundur skáldsögunnar Merkingar; Haukur Ingvarsson, höfundur ljóðabókarinnar Menn sem elska menn og fræðiritsins Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu; Sölvi Björn Sigurðarson, höfundur skáldsögunnar Kóperniku; Eiríkur Örn Norðdahl, höfundur Einlægs Andar; Guðlaug Jónsdóttir (Didda), höfundur barna- og endurminningarbókarinnar Í huganum heim; og Auður Jónsdóttir, höfundur skáldsögunnar Allir fuglar fljúga í ljósið. Bækurnar verða til sölu og höfundar munu árita – sprittaðir upp í hársrætur – en ekki verður boðið upp á smákökur eða kaffi í ár vegna sóttvarnasjónarmiða.
 
Viðburðurinn er haldinn með stuðningi frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.
 
Um bækur og höfunda:
 
Merking eftir Fríðu Ísberg
Merking er margradda verk sem fjallar um afstöðu og pólaríseringu, fordóma og samkennd. Þjóðin er klofin í afstöðu sinni til samkenndarprófsins, byltingarkenndrar tækni sem spáð getur fyrir um andfélagslega hegðun; annar helmingurinn vill öruggara samfélag, hinn vill réttlátt samfélag. Fram undan er þjóðaratkvæðagreiðsla sem sker úr um hvort fólki verði gert skylt að gangast undir prófið.
 
Fríða hefur áður gefið frá sér smásagnasafnið Kláða, sem tilnefnt var til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020, og ljóðabækurnar Slitförin og Leðurjakkaveður.
 
***
 
Ilmreyr eftir Ólínu Þorvarðardóttur
 
Ljósið dvínar, lokast brá.
Lætur vel í eyrum þá
ómur æskusöngva.
 
Ilmreyr er kveðja frá dóttur til móður en um leið óður til formæðra og -feðra sem háðu sitt lífsstríð við úthafsölduna vestur á fjörðum og áttu líka glímutök við brimöldur hjartans - þær sömu og fylgt hafa mannkyninu frá upphafi vega og gera enn.
Í bókinni vefast sjálfsævisöguleg efnistök saman við sagnfræði, þjóðfræði, skáldskap og skemmtun. Hér segir frá samskiptum og samspili kynja og kynslóða, ástum, bernskubrekum, hversdagslífi, ævintýrum og mögnuðum örlögum – og arfleifðinni sem lifir áfram í okkur, mótar okkur og eflir.
 
Ólína Þorvarðardóttir lærði íslensku, þjóðfræði og heimspeki við Háskóla Íslands og lauk þaðan doktorsprófi árið 2000. Ilmreyr er áttunda bók hennar en bókin Lífgrös og leyndir dómar var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2019.
 
***
 
Kópernika eftir Sölva Björn Sigurðsson
 
Kaupmannahöfn 1888. Raðmorðingi gengur laus og sýfilisfaraldur geysar. Börn í borginni hverfa unnvörpum. Kóperníkus, íslenskur unglæknir á Konunglega spítalanum, er rekinn frá störfum sínum og fært það í hendur að rannsaka lát besta vinar síns. En er nokkur niðurstaða í augsýn?
Kóperníkus einsetur sér að komast til botns í málinu og fylgist grannt með háttum samstarfsmanna sinna á spítalanum, sem hann grunar að ekki séu allir þar sem þeir eru séðir. Lík eru grafin upp úr Assistens-kirkjugarði eftir því sem þau hrannast upp á krufningarborðinu, og svo er ástin sem enginn má hugsa um þar til niðurstaða finnst. Á endanum getur Kóperníkus fáu treyst nema eigin innsæi.
 
Sölvi Björn Sigurðsson hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir síðustu skáldsögu sína, Seltu. Kóperníka er sú sjöunda í röðinni og hafa bækur hans hvort tveggja hlotið innlenda og alþjóðlega viðurkenningu.
 
***
 
Í huganum heim eftir Guðlaugu Jónsdóttur (Diddu).
 
Bókin byggir á æskuminningum Diddu úr sveitinni á Melum í Hrútafirði, þar sem hún ólst upp. Lesendur fá að kynnast dýrunum í sveitinni, sveitastörfum og leikjum barnanna, þar sem hættur geta leynst víða. Í huganum heim er falleg og bráðskemmtileg bók sem brúar kynslóðabilið og er því kjörin til samlesturs barna og fullorðinna. Höfundurinn hefur einstaklega góða frásagnargáfu og í bókinni er mikill texti með ríkum orðaforða.
Fallegar myndir Hlífar Unu Bárudóttur prýða bókina og verður lífið á Melum ljóslifandi fyrir augum lesenda.
Didda er kokkur og matreiðslukennari við Grunnskólann á Ísafirði. Í huganum heim er hennar fyrsta skáldverk.
 
***
 
Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu eftir Hauk Ingvarsson
 
Haustið 1955 sótti bandaríski rithöfundurinn og Nóbelsverðlaunahafinn William Faulkner Íslendinga heim. Kalda stríðið var í algleymingi og íslenska þjóðin klofin í afstöðu sinni til herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Faulkner var eindreginn talsmaður stórveldisins í vestri en fangaði hugi og hjörtu Íslendinga þvert á flokkslínur, sósíalistar lýstu honum sem fulltrúa þess besta í bandarískri menningu.
En hver var þessi Faulkner? Og hvernig stóð á vinsældum hans?
Í bókinni er fjallað um landnám módernismans í íslenskum bókmenntum og bandarísku bylgjuna sem reið yfir bókmenntaheiminn á fjórða áratug 20. aldar. Brugðið er nýju og óvæntu ljósi á þátttöku íslenskra hægrimanna í alþjóðlegu menningarstarfi í kalda stríðinu en á bak við tjöldin hélt bandaríska leyniþjónustan um þræði. Við sögu koma Hollywood-kvikmyndir byggðar á verkum Faulkners, erindrekar Bandaríkjastjórnar á Íslandi, aftökur án dóms og laga í Suðurríkjum Bandaríkjanna og íslenskur rithöfundur sem skrifaði skáldsagnaþríleik, innblásinn af Faulkner. Bókasafn Ísafjarðar spilar stórt hlutverk í bókinni, en þar stóð Guðmundur G. Hagalín fyrir merkilegu uppbyggingarstarfi á fjórða áratugnum
Hér er á ferðinni nýstárleg rannsókn sem byggir á fjölbreyttum heimildum, þar á meðal gögnum af innlendum og erlendum skjalasöfnum. Bókin á erindi til alls áhugafólks um bókmenntir og sögu.
Haukur les einnig úr ljóðabók sinni Menn sem elska menn, sem er hugleiðing um karlmennsku. Höfundur skoðar efnið í sögulegu og persónulegu ljósi, veltir fyrir sér vináttu og ást, hvernig tilfinningar mótast af hinu innra og ytra. Ljóðin eru í senn einlæg og margræð, fyndin og átakanleg. Bókin samanstendur af þremur heildstæðum bálkum en er bundin saman af þemum, myndmáli og rödd sem talar bæði til og við lesandann.
 
Haukur Ingvarsson (f. 1979) er rithöfundur og bókmenntafræðingur. Ljóðabók hans Vistarverur, hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2018. Haukur lauk doktorsprófi í íslenskum bókmenntum árið 2020. Á undanförnum árum hafa verk Hauks birst á fjöldamörgum tungumálum.
 
***
 
Allir fuglar fljúga í ljósið eftir Auði Jónsdóttur
 
Björt er ráfari, er í stopulli íhlaupavinnu en aðallega fer hún á milli staða í Reykjavík, fylgist með fólki og skráir hjá sér athuganir sínar. Hún leigir herbergi í hrörlegu húsnæði með öðru fólki á svipuðum stað í tilverunni, og hefur fastmótað form og rútínu á lífi sínu. Allt er í föstum skorðum – þar til hún sér Ólöfu Brá … og fær í kjölfarið bréf frá henni. Við það riðlast tilveran og lífssaga Bjartar brýst fram; vináttan við Veru, eitruð sambönd við Steingrím og Hálfdán – og smám saman flettist ofan af hinni ótrúlegu og dramatísku ævi hennar.
 
Auður Jónsdóttir, fædd 1973, er rithöfundur og sjálfstæður blaðamaður. Bækur hennar hafa notið mikillar hylli lesenda og gagnrýnenda allt frá fyrstu tíð. Auður hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir skáldverk sín, og hafa fjölmargar bóka hennar verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, en þau verðlaun fékk hún fyrir Fólkið í kjallaranum. Sú bók var jafnframt tilnefnd af Íslands hálfu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2006 og Ósjálfrátt til sömu verðlauna 2013. Bækur Auðar eru margverðlaunaðar og hafa komið út í ýmsum löndum og hlotið góðar viðtökur.
 
***
 
Einlægur Önd eftir Eirík Örn Norðdahl
 
Eiríkur Örn hefði ekki, með sinni alræmdu skáldagáfu, getað skrifað sjálfum sér verri örlög. Ekki í sínum verstu sjálfsvorkunnarköstum. Því ef það var nokkuð undir himninum sem Eiríkur hataði meira en að vera blankur, einn og ærulaus var það að vera blankur, einn og ærulaus í Reykjavíkurborg, þessari ömurlegu slabbsósa húsaþyrpingu sem blasti nú við honum út um þrjá stóra stofuglugga ...
Þegar Eiríkur Örn, aðalpersóna þessarar skáldsögu, tekur að sér kennsluverkefni í ritlist fyrir erlent stórfyrirtæki er því mótmælt með nafnlausri hótun. Hann hefur enda brennt allar brýr að baki sér með skrifum sínum og framkomu. Til að flýja veruleikann sökkvir hann sér í vinnu, söguna af Felix Ibaka frá Arbítreu, þar sem fólk refsar hvert öðru með múrsteinaburði.
 
Eiríkur Örn Norðdahl, höfundur bókarinnar, er Ísfirðingur, fæddur 1978. Hann hefur gefið út átta skáldsögur. Fyrir skáldsöguna Illsku hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin, Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, frönsku Transfuge-verðlaunin (sem hann hlaut aftur fyrir Heimsku) og var bókin auk þess tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, Medici-verðlaunanna og Prix Meilleur Livre Étranger. Eiríkur hefur einnig gefið út sjö eða átta ljóðabækur, ritstýrt tveimur bókum um ljóðlist, gefið út safn ritgerða um ljóðlist á ensku og skrifað stutta bók um bókaþjófnað og höfundarrétt. Eiríkur var Bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2014-2015.

Staðsetning og tími:

© Edinborg Menningarmiðstöð
Merki DressUpGames