Ný bók um Akureyrarveikina – kynning í Edinborgarhúsinu
Laugardaginn 4. október nk. verður Óskar Þór Halldórsson, höfundur nýrrar bókar um svokallaða Akureyrarveiki með kynningu á bók sinni á Patreksfirði og Ísafirði. Kynningin á Patreksfirði verður í Ólafshúsi, Aðalstræti 5, og hefst kl. 11 og á Ísafirði verður kynningin í Edinborgarhúsi kl. 16. Á báðum stöðum segir Óskar Þór frá efni bókarinnar, ekki síst hvernig Akureyrarveikin lék Vestfirðinga grátt.
Akureyrarveikin var alvarlegur faraldur sem braust út á Akureyri síðla árs 1948. Veikin breiddist hratt út og voru einkennin um margt því sem um slæma flensu væri að ræða og til viðbótar fékk um fimmtungur þeirra sem veiktust lömun. Margir glímdu við eftirköst Akureyrarveikinnar alla ævi.
Frá Akureyri barst veikin meðal annars til Ísafjarðar og þar braust út mjög alvarlegur faraldur á fyrstu mánuðum 1949. Fjöldi fólks lagðist í rúmið og var rúmfast vikum og jafnvel mánuðum saman. Veikindin settu auðvitað marks sitt á daglegt líf fólks. Samkomubann var sett á og var það á Ísafirði í samfleytt hundrað daga, sem segir margt um alvarleika faraldursins.
Ekki aðeins var faraldur Akureyrarveikinnar veturinn 1948-1949. Hann stakk sér aftur niður sex árum síðar, veturinn 1955-1956, annars vegar á Vestfjörðum og hins vegar í Þistilfirði. Einkum var veikin afar skæð á Patreksfirði og Barðaströnd en hún barst þó víðar um Vestfirði, t.d. í Bolungarvík og á Þingeyri.
Bók Óskars Þórs um Akureyrarveikina er mikil að vöxtum, tæplega 400 bls., og segir frá ýmsum hliðum frá þessum dularfulla sjúkdómi sem enn þann dag í dag hefur ekki verið greindur.
Allir eru hjartanlega velkomnir á kynningarnar laugardaginn 4. október í Ólafshúsi á Patreksfirði kl. 11 og í Edinborgarhúsi á Ísafirði kl. 16. Bókin verður til sölu á báðum stöðum.
Staðsetning og tími: Bryggjusal, laugardaginn 4. október.