Samband English

Breytingar á rekstri

STUND & STAÐUR

Dags: Mánudagur 30. september 2019

Starfsemi Edinborgarhússins næsta misserið

 

Nú um mánaðarmótin ganga í gegn breytingar á rekstri Edinborgarhússins í kjölfar aðhaldsaðgerða sem grípa þurfti til í vor vegna rekstrarvanda. Stærsta breytingin felst í því að rekstrar- og viðburðarstjóri, Matthildur Helgadóttir Jónudóttir, lætur af störfum um mánaðarmótin.

 

Ísafjarðarbær og stjórn Edinborgarhússins vinna að því að finna lausn á vandanum til framtíðar með aðkomu ríkisins svo rekstur hússins verði sjálfbær og það megi þjóna sem best tilgangi sínum. Á meðan sú lausn er í vinnslu mun stjórn sinna daglegum rekstri hússins, bókun viðburða og annarri þjónustu við listamenn, gesti hússins og aðra samstarfsaðila.

 

Stjórn Edinborgarhússins leggur áherslu á að starfsemi hússins haldist gangandi í því millibilsástandi sem fyrir séð er að ríki á meðan unnið er að framtíðarlausn. Allar upplýsingar um sali og aðrar bókanir eru aðgengilegar á vef Edinborgarhússins og hvetjum við alla áhugasam til að hafa samband nú sem fyrr.

 

Stjórn vill að lokum nota þetta tækifæri og þakka Matthildi fyrir góð störf í þágu hússins og menningarlífs á Vestfjörðum undanfarin fimm ár. Undir hennar stjórn hefur starfsemin vaxið og dafnað. Þetta góða starf verður vonandi grunnur fyrir áframhaldandi vöxt og uppbyggingu þegar varanleg lausn á rekstri hússins er fundin.

 

Stjórn Edinborgarhússins.

 

© Edinborg Menningarmiðstöð | Vefsmíði: Styx ehf. | CMS: WebSmith
Merki DressUpGames