Samband English

Prentverk Tryggva Ólafssonar

STUND & STAÐUR

Dags: Laugardagur 6. júlí 2019

Staður: Slúnkaríki - Bryggjusalur

Syning með prentverkum Tryggva Ólafssonar verður opnuð í Bryggjusal 6. júlí n.k.. Tryggvi lést fyrr á árinu 78 ára að aldri.

 

Hann sýndi list sína víða um heim og naut hylli hér á Íslandi og erlendis. Tryggvi var riddari af Dannebrog, handhafi fálkaorðunnar og hlaut verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2018 fyrir ævistarf sitt í þágu myndlistar og framlags til að efla menningarsamskipti Íslands og Danmerkur.

Tryggvi fæddist í Neskaupsstað 1. júní 1940 og lærði við Myndlistar- og handíðaskólann árin 1960-1961. Frá 1961-1966 lærði hann við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn. Hann vann lengst af að list sinn í Danmörku þar sem hann bjó í rúm 40 ár.

Tryggvi var í hópi þekktustu og virtustu myndlistarmanna þjóðarinnar og voru verk hans í eigu fjölmargra listasafna á Íslandi og erlendis. Snemma snéri Tryggvi sér að popplist þar sem hann nýtti sér efni og form frá bæði fortíð og nútíð. Stíll hans var auðþekkjanlegur. Verk hans voru alltaf póetísk og mjög persónuleg, stundum pólitísk, en í seinni tíð varð hann jafnvel djarfari í myndmáli og litanotkun.

„Ein af þörfum mannsins er þörfin fyrir fegurð, hún er bara misjafnlega sterk hjá fólki. Ég held að fegurðarskynið komi bara frá því að barnið er á brjósti hjá móðurinni. Ég hef haft þessa myndaþörf, það eru alveg hreinar línur með það, hún fer aldrei. Þegar ég er á ferðalögum og geri ekki neitt – og líður ágætlega við að sjá myndir, verk eftir aðra menn – þá fer mig að lengja eftir því að gera eitthvað sjálfur.“

Eftir alvarlegt slys árið 2007 gat Tryggvi ekki málað lengur og flutti aftur til Íslands með eftirlifandi eiginkonu sinni, Gerði Sigurðardóttur. Þau giftu sig í Kaupmannahöfn 1962 og áttu þrjú börn saman, þau Stíg, Gígju og Þránd. Þó Tryggvi hafi ekki getað málað eftir slysið hélt hann áfram að vinna að list sinni og vann grafík fram á síðasta dag. Hann hélt meðal annars tvær einkasýningar á grafík árið 2018.

„Hvað myndirnar mínar duga lengi eftir að ég er allur, það veit ég ekki. Þær verða bara að standa fyrir sínu. Tíminn er harður dómari og hann á að vera það.“





© Edinborg Menningarmiðstöð | Vefsmíði: Styx ehf. | CMS: WebSmith
Merki DressUpGames