Samband English

Maður sem heitir Ove

STUND & STAÐUR

Dags: Laugardagur 6. maí 2017

Tími: 20:00

Verð: 5500

Þann 6. maí næstkomandi mun einn ástsælasti leikari þjóðarinnar, Siggi Sigurjóns, heimsækja Ísafjörð þegar einleikurinn Maður sem heitir Ove verður sýndur í Edinborgarhúsinu. Sýningin hefur gengið fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu í vetur og nú gefst áhorfendum á Ísafirði og nærsveitum tækifæri til að njóta samvista við geðstirða Svíann Ove sem hefur heillað fólk um allan heim! Uppsetning Þjóðleikhússins hlaut einróma lof gagnrýnenda sem höfðu meðal annars þetta að segja:

„Það er full ástæða til þess að hvetja leikhúsáhorfendur til þess að sjá þennan vel heppnaða einleik...“ 
**** DV, B.L.

„Sigurður Sigurjónsson er ekkert annað heldur en einn af albestu leikurum þjóðarinnar. Í hlutverki Ove sýnir hann fádæma tækni og lipra tímasetningu“
**** Fréttablaðið, S.J.

Leikritið fjallar um hinn 59 ára gamla Ove sem sumir myndu kalla "dæmigerðan Svía" - reglufastan nákvæmnismann, óþolandi smámunasaman og önuglyndan. Þegar ólétt kona að nafni Parvaneh flytur með fjölskyldu sína í götuna er eins og Ove byrji að missa tökin á öllu. Maður sem heitir Ove er bráðfyndinn og nístandi einleikur um sorg og gleði, einangrun og nánd.

Þjóðleikhúsið hefur í vetur lagt aukna áherslu á að færa leiklistina nær áhorfendum á landsbyggðinni, og hefur Ove þegar verið sýndur á Akureyri, Egilsstöðum og í Skagafirði. Einnig var barnaleikritið Lofthræddi örninn Örvar frumsýnt í Vestmannaeyjum og sýnt í Edinborgarhúsinu og víðsvegar um landið í kjölfarið.

© Edinborg Menningarmiðstöð | Vefsmíði: Styx ehf. | CMS: WebSmith
Merki DressUpGames